Færsluflokkur: Bloggar

...and Action.

Kominn til Tromsö og fyrsti flugdagurinn yfirstaðinn ásamt 3 öðrum. Mér leið eins og farþega frekar flugmanni fyrsta daginn en svo fór þetta allt að koma. Ég flaug hérna á norðurkantinum allt til landamæra Rússland og niður til Bodö. Samtal 13 leggir á 2 dögum. Frekar mikið að gerast enda stuttir leggir og jafnmikil vinna og ef leggirnir væru 10 tímar. Þetta verður hellings vinna en helvíti skemmtilegt. Ég flaug líka frá Osló, á vesturströndina og til Gautaborgar. Gífurlega mikið af nýjum hlutum en allt í bankann og hlakka til næstu helgar.

Nú er júrovisjón búið, Ísland í öðru sæti og í fyrsta skipti var ég staddur í sigurlandinu. Hefði samt kosið að vera á skerinu með mitt árlega partý en svona er þetta. Það var suddaleg stemning hérna allsstaðar i Tromso en ég varð að vera rólegur þetta kvöldið. Standby daginn eftir. Daginn eftir var svo þjóðhátíðardagur norðmanna 17.maí. Bærinn fylltist af fólki og það var magnað hvað allir voru svakalega fínir. Langflestar konurnar voru í þjóðbúningum og nokkrir karlmenn líka. Ég var hreinlega imponeraður yfir því hvað fólk hafði mikið fyrir því að klæða sig fínt fyrir daginn.

Nú er ég í fríi í viku þartil ég flýg til Osló næstu helgi og byrja næstu vinnuviku. Eftir það er 9 daga frí og vonast ég til að komast til Genf til að hitta Sophie mína.

Þangað til næst.


Aftur til Genf

Jæja, þá er maður kominn aftur til Genf og það í 3 vikur í þetta skiptið. Ég er búinn með grunnþjálfun og lendingar og bíð núna eftir þvi að komast í flug. Það er gerist ekki fyrr en 3.maí. Til að byrja með verður maður undir verndarvæng sérstakra þjálfunarflugstjóra en eftir það verður maður einn af liðinu.

Ég er búinn að flakka til Tromsö, Bodö, Osló og svo Genf síðan síðast. Ég fór til Tromsö strax eftir prófið i flugherminum sem ég tók með trompi. Planið var að finna íbúð, tala við banka og þessháttar. Koma sér fyrir þrátt fyrir þó að ég byrjaði ekki fyrr en í maí. Ég náði að finna mér herbergi í húsi sem margir Wideroe starfsmenn búa í. Mjög fínt og eigandinn er gamall kapteinn. Eldhress náungi sem hugsar eins og 18 ára unglingur, kellingar, bjór og peningar. Gaman að ræða við hann. Hitti mjög mikið af fínu fólki. Nær allir sem ég hitti voru afar vingjarnlegir og allir tilbúnir að hjálpa. T.d. var einn flugmaður búinn að hafa samband af fyrra bragði og tilbúinn að aðstoða mig með hvað sem er þegar ég kæmi. Ég hafði samband við hann þegar ég lenti. Hann sótti mig á sínum bíl, keyrði mig á hótelið, ég tékkaði mig inn og svo fékk ég 4 klst guide túr um alla Tromsö. Hann sýndi mér allt. Bara af því að við erum vinnufélagar. Mjög næs náungi. Svona er viðhorfið hjá nær öllum í Wideroe. Vinnuumhverfið er frábært. Allir í góðu skapi. Draumavinnan.

Nú er ég annars í Genf og veit ekkert hvað ég á af mér að gera. Tengdó eru að koma yfir páskana og verður það fínt. Eldhress bæði. En svo á ég 2 vikur eftir það!!! Hvað á maður að gera við allan þennan tíma? Oh well, kannski drekka te úti á svölum í 20 stiga hita á meðan maður dáist af útsýninu yfir alpana. Sjáum til.

Hitakveðjur frá Genf

 


Enn í þjálfun hjá Wideroe

Elskulega fólk

 Akkurat núna er ég kominn til Genf og búinn að vera í nokkra daga. Ég fékk vikufrí í flughermi og ákvað að skella mér til kellu því ég hef ekki séð hana síðan 4.janúar. Verí næs.

Ég er annars búinn að eyða 6 vikum í Bodö í norður Noregi og var það ágætis lífsreynsla. Norður norðmenn eru ágætasta fólk, glaðlynt og viðkunnanlegt. Eftir 6 vikur þar kláraði ég loksins bóklega hlutann í þessari þjálfun. Við tók þjálfun í svokölluðun papertiger sem er eiginlega eftirlíking af flugstjórnarklefa inn í einu herberginu í skólanum. Þar þjálfum við ákveðna prósidjura og neyðarviðbrögð til að spara tíma í sjálfum flugherminum. Eftir það fékk ég að fljóta með í nokkrum flugferðum í heilan dag. Við flökkuðu milli nokkurra minni flugvalla og var þetta beinlýnis til að gefa mér innsýn inn í það sem bíður mín. Hlakka bara til.

Við tók svo flugferð til Osló þarsem flughermirinn beið mín. Fyrsta skiptið var ógeðslega skemmtilegt og maður var eins og fimm ára krakki í leikfangabúð. Það kom mér á óvart að hvað ég var fljótur að ná tökum á vélinni. Bara eftir nokkrar mínútur. Er búinn að fara í 7 skipti núna og hafa öll nema eitt skipti gengið frábærlega. Ég svaf samt ekki dúr í heila viku því ég var alltaf að hugsa um næsta dag. Náði einhvernveginn bara að komast yfir það að þurfa svefn og þjösnaðist í gegnum daginn. Sofnaði fyrst þegar ég kom til Genf síðastliðinn mánudag. Held mig hafi bara vantað konuna við hliðina á mér.

Nú tekur við flughermir á þri og alla daga fram á fös. Þá er próf prófanna. Það verður massað.

Var svo að fá planið fyrir apríl og þar er bara eitt flug planað, lendingarnar mínar 6.apríl. Vona að það verði breyting á því samt.

Nær allur marsmánuður hefur farið í flugherminn með 2 hléum. Í fyrra hléinu fór ég til Köben að heimsækja Haffa og fékk íbúðina hennar Eyrúnar lánaða því hún þurfti að fara til Íslands þessa helgi. Það var æðislega næs að gista í íbúðinni. Var orðinn dáldið þreyttur á hótelum eftir 8 vikur. Seinna hléið er núna í Genf.

Ég fékk að vita að Tromsö verður mitt base. 71 norður, hmmm, bara spennandi. Ég hef líka alltaf vitað það að snjórinn á betur við svona albinóa eins og mig en steikjandi sólin og ströndin. Ég og sólin höfum aldrei verið félagar. Ég+sól=bruni. Einfalt dæmi.  Held ég eigi eftir að pluma mig ágætlega þarna. Hef góða tilfinningu fyrir þessu öllu. Stefni á að fara þangað þegar ég er búinn með þjálfunina og leita mér að húsnæði og bíl.

Þetta er allt í bili af Ævintýra Jóni.

Góðar stundir.


Norðmenn

Hvað er þetta með Norðmenn. Af hverju eru einu íþróttirnar sem þeir sýna í sjónvarpinu eru gönguskíði og skautahlaup??? Ekki að sjá áhugaverða vinkilinn á þessum íþróttum.

Þeir borða kvöldmat milli 16 og 18 á daginn og vöfflur eiga alltaf við í öllum máltíðum. Er bara voða lítið svangur á þessum tímum. Annars er Wideroe með samning við nokkra veitingastaði hérna í bænum sem gefur okkur góðan prís á mat. Gott mál.

Forkeppni norska júrovisjon hérna í  Bodo í kvöld. Var mikið hugsað til Stínu systir og Bjössa mágs þegar ég frétti þetta. Held ég verði heima. Þau hefðu skellt sér. Mér varð líka mikið hugsað til Bogju systir og pabba þegar ég fann Solo appelsin hérna í búð. Þeir hafa greinilega haldið áfram að framleiða það siðan 1972. Bragðast alveg ágætlega.


Wideroe námskeið Bodo

Nú er ég staddur í Bodo norður Noregi. Hér er hvasst alla daga og sólarljós í 3 tíma. Ekki alveg Mallorka en allt að því. Ég er byrjaður á Dash 8 100/300 námskeiði og eru allar aðstæður til fyrirmyndar. Við erum 9 á námskeiðinu með misjafnan bakgrunn. 7 Norðmenn, 2 Svíar og ég. Norðmennirnir eru svo uppteknir við að gera grín af Svíunum að ég hef ekki fengið neina kreppubrandara lengi. Annars er meiriháttar stemning í hópnum og allt saman gott fólk.

Við erum byrjuð á CBT prógrammi og er kennslan afar ítarleg og góð. Hefði engar áhyggjur ef ég kynni líka norsku en það kemur allt. Allt er borgað undir okkur og fór hitt liðið meiraaðsegja heim núna um helgina á kostnað Wideroe. Verð því einn hérna helgina enda aðeins lengra fyrir mig heim. Þegar mér verður hugsað til heimahagana skelli ég mér bara í ullarpeysu, fer í ullarsokka, hengi íslenska fánann uppá vegg og fæ mér harðfisk (valdi það til að taka með mér sem luxury item eins og í survivor, valdi milli þess og lýsisGrin).

1 week down and 5 weeks to go. Nú er bara að standa sig og halda áfram að lesa.

Kveðjur á klakann.


Á leið á skerið

Ég er að hugsa um að mæta á klakann þann 6.jan og vera til 18.jan. Verð aðeins að kíkja framan í vini og vandamenn áður en Noregsför hefst. Maður verður að nýta tækifærið núna því ég hef ekki hugmynd hvenær næsta tækifæri verður.

Áramótin voru afar fín. Við Sophie vorum boðin í partý niðrí Genf heima hjá samstarfsmanni hennar. Þetta var með DJ, ljósasjóvi og allt.  Það var mjög skemmtilegt og við hittum mikið af áhugaverðu fólki. Hitti til að mynda franskan mann sem hafði séð heimildamynd um Ísland um átti sér þann draum heitastan að komast í göngur og réttir. Get ekki sagt að ég hafi átt von á þess konar hitting. Ég allavega jós úr skálum vitneskju minnar því sem ég tel mig vita um göngur og tel ég að hann hafi yfirgefið partýið sem betri maður. Lærði samt þarna að þegar boðshaldarinn segir manni ekki að koma með neitt áfengi þá gerir maður það bara samt. Það var ekkert nema sangría og kampavín og svona gutl. Sveitamaðurinn Jón getur ekki drukkið meira en 2 glös af þessu dóti og þá er ég búinn að fá nóg. Þetta er fínt svona með mat en ekki til að drekka. Var ekki einn 250 ml flöskubjór eins og frakkar eru frægir fyrir. Sá ekki áramótin fyrir mér svona enn á móti kom að maður fann ekkert á sér og þ.a.l. reif maður sig upp fyrir allar aldirá nýársmorgun til að halda áfram að rífa niður veggfóður. Og til að horfa á skaupið náttúrulega. Átti sína spretti og ekki meira um það.

Hlakka til að sjá ykkur eftir nokkra daga.


Snjóbrettasnillingur

Jú, þið lásuð rétt. Ég er snjóbrettasnillingur. Ég lærði á 2 dögum að renna mér niður snarbrattar brekkur Mont Jura á snjóbretti , meira að segja með vott af virðingu. Það er BARA gaman. Ég er ekki að segja að ég sé tilbúinn í heimsmeistarakeppnina en allt að því. Mikið djöfull þurfti ég bara að fljúga oft á hausinn fyrst. Þetta var bara ein sársaukasigurganga þessa 2 daga en seinni hluta síðari dags náði ég stjórn á helvítinu og það er þrusugóð tilfinning. Mæli með þessu. Eina sem það kostaði voru strengir DAUÐANS næstu daga og vikur. Ég er hreinlega heppinn að geta slegið inn stafi á lyklaborðið vegna strengja í öllum kroppnum. Ég átti bara erfitt með að sofa því ég vaknaði við sársauka í hvert skipti sem ég þurfti að snúa mér. Totally worth it samt.

Jólin er búinn að vera afbragðsgóð þó maður sé fjarri fjölskyldunni. Ég saknaði þeirra afar mikið en náði jólamessunni kl 18 af netinu og lét hana hljóma meðan maður gæddi sér á góðmetinu, við mismikinn fögnuð annara viðstaddra. Þau höfðu meiri skilning á stöðunni þegar ég útskýrði að maður væri háður því að heyra jólamessuna duna yfir jólamatnum.

Við fengum góða heimsókn um jólin frá Richard vini okkar og svo kom 2 vinir Sophiear seinna og gistu hjá okkur eina nótt. Þeir voru á leið til suður Frakklands á skíði. Það var helvíti gaman hjá okkur og nokkur bjór þjóraður þegar margir karlmenn koma saman. Það er magnað hérna í France að það er erfitt að finna í verslunum bjór sem er í stærri einingum en 33 cl. EN auðvitað var hægt að fá minni flöskur, 250 ml ?????? Af hverju ætti einhver að fá sér bjór sem er á stærð við kókómjólk? Það hreinlega borgaði sig ekki að taka upp eina flösku því hún var búin á 3 min. Endaði með því að maður fékk sér alltaf 2 þegar maður náði sér í kaldann í ísskápinn.  Skil ekki.

Gott fólk, góðar stundir.


Þorláksmessa

Nú er afmælið búið og hægt að einbeita sér að jólaundirbúningi hehe. Þakka fyrir allar kveðjurnar sem ég fékk á Facebook. Knús til ykkar allra. Systkyni mín eru búin að senda mér afmælis og jólapakka fyrir jólin og verður það ægilega huggulegt að opna pakka frá þeim. Ég fékk Allir litir hafsins eru kaldir og Svartir englar frá þeim. Búinn að heyra mikið af hvorutveggja og hlakka mikið til að horfa á yfir hátíðirnar. Sophie gaf mér líka flotta gjöf. Hún keypti handa mér EINN DAG Í RALLÝBÍL. Jamm, ég fæ kennslu og keyrslu á rallýbíl einhversstaðar í Danmörku. Hlakka ekkert smá til að prófa það.

 Þorláksmessa og hér er engin skata. Jafnvel þótt ég hefði flutt hana inn hefði ég ekki fengið neinn til að borða hana með mér. Ég sakna þess frekar mikið núna. Ég hef ekkert alltaf borðað skötu frekar en hákarl en það er eitthvað sem ég vandist bara og get ekki verið án núna. Það einkennilegast með hákarl er að ég þurfti að fara til Danmerkur til að fíla hann. Mér fannst hann ógeð þartil að Hafsteinn fékk hákarl að heiman. Svo yfir meistaradeildinni síðasta vetur var hannaður leikur sem sagði að við urðum að taka bita alltaf þegar Liverpool skoraði. Eftir nokkra leiki var hákarlinn búinn og við orðnir háðir þessu. Liverpool datt fljótlega út eftir það. Held það hafi verið skortur á hákarli bara.

Innilegar jólakveðjur frá Gex í Frakklandi og gæfuríkt komandi ár.


Veggfóður er uppfinning djöfulsins

...sem segir að ég er að rífa niður ógeðslegt franskt veggfóður í fínu íbúðinni okkar. Erum annars að mála og reyna að koma okkur fyrir. Nýja íbúðin er góð og ódýr en annað mál er með nýja bílinn okkar. Hann er ekki að alveg að dansa á þessum síðustu og verstu. Neitar hreinlega að fara í gang stundum. Búinn að fara á verkstæði og borgaði formúgu fyrir sem bætti ekki neitt. Ekki í góðu skapi þessa dagana því það er ekki hægt að lifa hérna án þess að hafa bíl. Ekki eins og í Köben. Þar eru almenningssamgöngur. Ekki hér. Þetta er dáldið eins og að vera bíllaus um vetur fyrir norðan. Þú ert alveg einangraður.

Svo erum við netlaus og því er ég á eina staðnum í nágrenninu sem er með þráðlaust net. McDonalds. Frakkland er eini staðurinn í heiminum enginn talar ensku á McDonalds. Ég ekki skilja. Sé annars fram á að éta mikið að Makka þartil netið kemur. Vonandi fyrir jól. Er sambandslaus við umheiminn þangað til og það er ekki gaman. Maður er frekar háður netinu og sérstaklega þegar maður er langt frá öllu og öllum og jól á næsta leiti. Erum að vinna í því að fá okkur franskt númer svo maður geti náð sambandi við Gufunes radío.

Skemmtilegar staðreyndir um Frakkland og Genf.  1. World Trade Center er við flugvöllinn í Genf????? Húsið er á stærð við Morgunblaðshúsið. Einhver að misskilja. 2. Allir bankar í Frakklandi eru lokaðir á mánudögum??????? Af hverju myndi einhver spyrja, þar á meðal ég. Ekki hugmynd. Þeim finnst það bara töff. We´re French and we don´t care. (segist með fyrirlitningarsvip og sígarettu í annarri).

Þartil næsta McDonalds heimsókn.

Kveðjur frá Gex(rétt norður af Genf)


Gleðifréttir

Við Sophie erum  komin með íbúð. Hún er í franska hlutanum rétt norðan við Genf með útsýni yfir vatnið og í æðislega sætum litlum bæ sem heitir Gex (sjex). Ódýr, góð  og indæl. Afar sátt. Erum líka kominn með forláta Alfa Romeo 164 sem ég náði í til Köben. Datt bara upp í hendurnar á okkur. Hann er á frönskum númerum og var það þvi afskaplega heppilegt. 95 módel með 3 lítra vél en eyðir engu. Tók þýsku autobahnana í nefið. Það var ekki leiðinlegt. Allt að gerast. Flytjum inn í íbúðin á morgun. Gott að geta loksins átt sér samastað. Við Sophie erum búin að búa í ferðatösku á 6 öðrum stöðum á þessu ári. Verður því sjöundi og síðasti í bili allavega. Nenni ekki lengur að búa í ferðatösku.

Næsta síða »

Höfundur

Jón Bergmann Sigfússon
Jón Bergmann Sigfússon
Kærastan,flug og enski boltinn i þessari röð.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 477

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband