Furðulegir fallhlífastökkvarar

Englendingarnir sem ég átti samskipti við í Headcorn í síðustu viku eru allir með tölu vinalegir og þjónustulundaðir. Mér leið vel þarna og fínt fólk i alla staði. Nokkrir voru samt furðulegri en aðrir. Það kom einn fallhlífastökkvari að heimsækja Tom flugmann sem ég deildi með trailer. Hann leit út eins og Pétur Jóhann Sigfússon (Ólafur Ragnar) í vexti og ekki ólíkt andlitsfall. Var samt með smá bumbu og  skalla eins og Marteinn Mosdal og greiddi pent yfir. Var líklega um 35 en með skallann leit út fyrir að vera 49 ára. Á því miður ekki mynd af honum. Fáið góða mynd með því blanda þessum 2 saman. Ósköp fínn náungi og talaði eins og enskur aðalsmaður frá Viktoríutímabilinu. Seinna um kvöldið var ég eitthvað að spyrja Tom út í náungann og þá fæ ég tilbaka: "Ha, hver, þú meinar KLÁMMYNDASTJARNAN". Ég fór að skellihlæja og þá aðallega hversu fjarstæðukennd þessi hugsun er eiginlega. Ég spurði þá tilbaka hvernig í ósköpunum maðurinn hefði áunnið sér þetta gælunafn. Skildi hann hafa hrunið svona svakalega i það i einhverju partýinu. Verið fórnarlamb einhvers sem hefði orðið var við hann gerandi ósiðsamlega hluti með einhverri óheppinni snót sem hefði svo verið lekið á netið. Svarið sem ég fæ er: "Nei nei, það er af því hann ER klámmyndastjarna". Þá missti ég andlitið. Hann á semsagt sænska kærustu sem ég hef notabene ekki séð. Þau búa til klámmyndbönd heima hjá sér og fá massa pening fyrir. Mín spurning er sú: hvernig i andskotanum svona gaur getur verið klámstjarna? Forljótur og algerlega snauður öllu sexapíli. Eina sem mér dettur í hug að hann hafi sameiginlegt með Ron Jeremy og John Holmes er að hann hlýtur vera vaxinn niður eins og fíll. Meira að segja stelpurnar sem ég talaði við á barnum og voru að segja mér sögur frá því þegar hann vildi dansa súludans fyrir þær, fengu hroll bara við tilhugsunina.  Getiði ímyndað ykkur Jóhann Pétur með skalla dansa súludans? Eftirá að hyggja var hann eini maðurinn sem  átti glænýjan Pajero jeppa!!! Eftirá að hyggja liggur við að maður verði að fara í samningaviðræður við betri helminginn til að rétta af fjárhag heimilisinsGrin!!!


Skyndiheimsókn til Stokkhólms

Ég var í þessu að koma frá Stokkhólmi. Ég ákvað á mánudaginn að skella mér þangað og hitta mína heittelskuðu þvi við vitum ekkert hvenær næsta tækifæri kemur. Sophie átti skyndilega 2 daga aflögu og ákvað ég þvi að nota tækifærið. Það var æðislegt að sjá hana enda búinn að sakna hennar ægilega. Hún sýndi mér allan skólann og ég fékk að kynnast aðeins hvað kennslan gengur út. Þetta er mikið efni að innbyrða á stuttum tíma en hún er svakalega dugleg.

Skólinn sem Sophie er í er á Arlanda flugvelli og þvi ekki langt fyrir mig að fara þegar ég lenti. Við náðum samt að kíkja aðeins á Stokkhólm áður en ég kom tilbaka. Við höfðum eiginlega hvorugt farið til Stokkhólms áður og þvi vorum við hálfóákveðin um hvað við ættum að skoða. Ákváðum eftir að hafa kíkt á eitthvað ferðakort að kíkja á gamla bæinn. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum og komumst að því að Stokkhólmur er bara nokkuð snotur bær og alveg þess virði að kíkja á. Húsin þar eru mjög heillandi og er Sophie sérstaklega hrifin af svona gömlum húsum. Við erum sjaldnast sammála um hvernig hús eiga að vera þvi ég vil helst hafa þau í nýrri kantinum. T.d. í dag þegar hún benti á snoturt og fallegt gamalt hús hugsaði ég bara um hvað viðhaldið yrði mikið og dýrt (skipta um raflagnir, skólp, einfalt gler og engin einangrun var meðal annars það sem fór i gengum hugann á mér) og hvergi hægt að leggja bílnum. Eyðilagði alveg momentið eins og mér einum er lagið. Rómantískur með eindæmum. Fórum inn á æðislega kósí konditori sem á víst að vera Stokkhólms elsta eins og svo margt i þessum bæjarhluta. Fengum ótrúlega gott heimalagað kakó og kökur. Ég hugsaði með mér að þetta væri svona staður sem mamma myndi fíla og í sömu andrá kom kokkurinn/bakarinn útúr eldhúsinu. Hún var alveg eins og sænsk útgáfa af mömmu. Líkt andlitsfall, sama hæð,eins hár næstum söm,u gleraugu og með eins mittissvuntu og mamma var með þegar ég, um ársgamall, pissaði ofaní svuntuvasann .

Mæli með heimsókn til Stokkhólms en kannski þegar farið verður að líða aðeins meira fram á sumar þvi það var vægast sagt skítkalt.

 

 


Skötuhjúin í dag og nýjasta framtíðarplanið (breytist daglega)

Staða okkar í dag er á þann máta að ég verð á flakki um Evrópu í sumar og Sophie er á Dash 8 Q400 type rating námskeiði i Stokkhólmi. Hún verður á því þartil i enda apríl en við tekur atvinnuleit geri ég ráð fyrir. Þarsem við verðum lítið við í Köben ákváðum við að segja upp leigunni og koma innbúinu fyrir hjá vinum eða í geymslu þartil við komum aftur i haust. Ef þú lesandi góður, býrð i Köben og vantar húsgögn eða hefur aflögu geymslupláss þá vertu endilega i bandi. Grin

Flakkið á okkur verður það mikið að við vitum eiginlega ekki hvenær við hittumst næst. Sjáum fram á háa símreikninga, msn og email í miklu magni út sumarið. Endurtekning á síðasta sumri og því ekkert nýtt fyrir okkur. Glæst líf flugmannsins, svo ekki sé minnst á að við erum bæði í sama ruglinu. Þetta er farið að líkjast sjómannslífi, eins og að vera i smugunni. Nema hvað að við erum líklega í sitthvorri smugunni verandi bæði flugmenn.


Sumarvinnan

Ég er búinn að fá sumarvinnu við að fljúga með fallhlífastökkvara viðsvegar um Evrópu i sumar. Flugvélin sem ég flýg tekur 18 fallhlífastökkvara og heitir GAF Nomad. Planið er að vera i Englandi út maí og í Skyen i Noregi júní, júlí og ágúst. Þýskaland er svo planað i september. Held það verði mjög spennandi og góð reynsla. 

NomadForsagan af þessu öllu er að maður sem þekkir mann sem þekkir mann sem þekkir mann hringdi i Sophie og lét hana vita af því að það vantaði flugmann i þetta jobb. Hún hringdi í eigandann af vélinni sem þakkaði fyrir áhugann en vildi fá tímahærri mann. Þá benti hún á mig og féll það í góðan jarðveg hjá honum. Við komumst að samkomulagi og ákveðum að koma mér i gegnum þjálfun því hann vantaði flugmann sem fyrst. Þetta gerist í enda febrúar. Nokkrum dögum seinna handleggsbrotnar eini flugkennarinn á þessa flugvél og þjálfun minni er frestað. Eigandinn þurfti samt sem áður að hafa vélina í Englandi um páskana og ákveður að fljúga henni sjálfur þangað og taka mig með svo ég fái smá æfingu á hana áður en þjálfunin sjálf byrjar. Nýta tímann sem best. Við komumst loks af stað áleiðis til Headcorn 15.mars eftir baráttu við veðrið og komum tilbaka 22.mars. Sagan af dvöl minni þar kemur seinna.


Á fyrsta degi skapaði Guð bloggið....

Ég vil byrja á því að þakka Höskuldi vini mínum fyrir að sparka i rassgatið á mér og koma þessu bloggi i gang. Sökum leti og fyrri reynslu hef ég hreinlega ekki lagt í það en eftir ferð mína til Headcorn i Englandi sá ég fram á að það væri víst óhjákvæmilegt. Þegar maður sem hefur takmarkaða pennareynslu og löngun til að tjá sig á netinu stendur sjálfan sig að því að hugsa 10 sinnum á dag, Djöfull myndi ég setja þetta á bloggið ef ég væri með slíkt, verður ekki aftur snúið. Takk Höskuldur og hérmeð hefst nýtt bloggtímabil Jóns B.


Nýtt blogg

Það fyrsta sem mig langar að taka fram er að ég elska kærustuna mína afar heitt.

Höfundur

Jón Bergmann Sigfússon
Jón Bergmann Sigfússon
Kærastan,flug og enski boltinn i þessari röð.
Mars 2008
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband